Launhálkan er lævís

Eftir á að hyggja var heimferðin okkar á þriðjudaginn með glannalegasta móti þar sem við hlupum á götunni, á hálkumótunum og var ekki laust við að stundum munaði mjóu. En þetta verður maður að gera þegar ekki er andskotast til að skafa af gangstéttunum. Þess má geta að við förum jafnan um Flatahraun en þar varð hjólreiðamaður fyrir bíl á þriðjudaginn og liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild. Engin furða þar sem sérlega illa var skafið við Flatahraunið. Á sama tíma glymja á manni hvatningar borgaryfirvalda að fara á hjóli eða gangandi í vinnu til að draga úr svifryki. Það eina sem vantar í auglýsingaherferðina er hvar fólkið á að ganga eða hjóla. Ég held að það yrði upplit á einhverjum ef göngufólk fyllti Kringlumýrarbrautina frá Kópavogi.
En þetta er útúrdúr. Það sem skiptir máli er að geta farið út og hreyft sig, fengið hreint loft í lungun og endorfín í skrokkinn, sest nýþveginn að soðningu með sméri og rúgbrauði og klappað maka sínum eins og þurfa þykir og orkan leyfir eftir 15 km af svona puði. Allt er þetta meinhollt.

Færðu inn athugasemd