Yasso-sprettir!

Stundum leggst maður í lestur á greinum og fróðleik. Þessi pistill er afraksturinn í þetta sinn.

Bart Yasso hefur starfað hjá Runners World tímaritinu í næstum tuttugu ár. Hann á rúmlega 150 maraþon að baki og nefna má Boston, New York, Suðurskautsþonið og Kilimanjaro. Ógleymanleg er frásögn af þátttöku hans í Badwater-Mount Whitney þar sem hlaupið er frá Dauðadal í Kaliforníu í steikjandi hita, frá lægsta punkti Bandaríkjanna og upp á Whitney-fjall sem er um 4500 metra hátt. Að auki hefur hann lokið heilum Járnkarli fimm sinnum og keppt í tvíþrautum og ævintýrakeppnum.
Þessi formáli sýnir að mikið er í manninn spunnið. Eftir ábendingu á síðu Evu fór ég að fletta netsíðum og kynna mér Yasso-sprettina svonefndu. Hugmyndin er einföld, eins og allar góðar hugmyndir. Hefst nú lausleg þýðing úr Runners World:
„Sá sem vill hlaupa maraþon á 2:45, 3:29 eða 4:11, ætti að þjálfa þar til hann getur hlaupið tíu 800 metra spretti á viðkomandi tíma, 2:45, 3:29 eða 4:11. Miðað er við að maraþontíminn sé í klukkustundum og mínútum en 800 metra tíminn er reiknaður í mínútum og sekúndum.

    Bart mælir með Yasso-sprettum einu sinni í viku í undirbúningi fyrir maraþon.

Til dæmis má byrja á 4 sinnum 800 og bæta smám saman við upp í 10 sinnum 800. Á milli spretta er hvíldarskokk í jafnlangan tíma og tók að hlaupa sprettinn. Almennt eru Yasso-sprettir góð æfing fyrir alla hlaupara þar sem þeir eru í raun skipulögð tempóæfing. “
Samkvæmt þessu ætti ég, sem ætla að reyna við 3:50 á Mývatni, að hlaupa Yasso-spretti á þessum hraða og skokka í 3:50 á milli spretta. Eins gott að gefa sér góðan tíma í æfinguna því tíu sprettir samkvæmt þessu taka um 80 mínútur og þá er eftir að hita upp og skokka niður. En auðvitað byrjar maður á sirka fimm og sér svo til.

Færðu inn athugasemd