Fimm ára hvíld

Titillinn vísar til þess að fimm ár eru síðan jeg barði hjer síðast á lyklaborð, orðinn of þungur og hjassalegur vegna leti og æfingaleysis. Jeg er ekki hættur að hreyfa mig en viðurkenni leti með köflum. Núna er jeg 68 ára, bráðum 69 og finn að skrokkurinn er viðkvæmari fyrir æfingaálagi því mjer hættir til að æfa eins og 2015 þegar ofþjálfunin kom í heimsókn. Þá var ekkert mál að hjóla í 4 tíma, skokka hálft maraþon á laugardegi og synda 3 km á æfingu. Það er liðin tíð.

Jeg er um 90 kíló núna en finnst sporið ljett, skokka yfirleitt á 6:40 hraða hjer um hverfið mitt og víðar og líkar það vel. Jeg veit að hraði er aldurstengdur og horfi frekar á púlsinn því það er ekki gott þegar hann fer yfir 150 því þá er jeg frekar lúinn það sem eftir er dags.

Jeg er latur að hjóla og í sumar gat liðið mánuður án þess að hjól væri tekið út. Jeg á þessi þrjú hjól og get ekki kvartað undan skorti á búnaði en bíð sultuslakur eftir að mig langi til að hjóla. Þá sleppi jeg sundæfingum og hjóla 2 tíma síðdegis.

Jeg fór 10 km í RM í sumar á 56:55 og var sáttur því það var hraðinn sem lagt var upp með. Jeg veit að fyrir næsta ár verður markið sett á að fara undir 58, því sennilega tapar maður um mínútu á ári í hraða.

Um þetta var jeg sem sagt að hugsa í morgun þar sem leiðin lá kringum Ástjörn, upp í Skarðshlíð og þaðan heim. Þennan hring rata jeg vel, fer hann í hverri viku og mjer leið vel. Jeg þarf ekki meira í bili.

Færðu inn athugasemd