Upphafið

Af lífshlaupi

Sumarið 1984 byrjaði ég að skokka. Það var ekki mikið í fyrstu. Þá þótti gott að komast frá Öldugötunni í Hafnarfirði og út að Reykjanesbraut án þess að stansa. Það var ákveðinn áfangi að fara hvíldarlaust út að Kaplakrika eða rúman kílómetra. Sá dagur lifir enn í minningunni vegna góðs veðurs og sérkennilegrar vellíðunar sem ég hafði þá ekki upplifað í tæp 20 ár.

Heima í sveitinni þóttum við börnin létt á fæti og þá var gaman að smala. Út um mela og móa, upp hlíðar og hóla var elst við sauðfé sem hafði öllu minna úthald en mannskepnan og var ósköp leiðitamt í rekstri þegar leið á daginn.

Síðan komu unglingsárin og vottorð í leikfimi. Í þá daga var leikfimi með þeim hætti að einungis hjólliðug heljarmenni réðu við hana. Höfuðstökk, Arabastökk, flikkflakk, heljarstökk, höfuðstaða og hvað þær nú hétu allar þessar æfingar sem Kalli Aspelund vildi að maður lærði og kynni. Sveitapilturinn gat bara hlaupið en í leikfiminni var slíkt ekki í boði. Vottorð var góð lausn. Við tóku reykingar og letilíf menntaskólaáranna og öðru hverju var Bakkus frændi heimsóttur og þeginn beini.

Mörgum árum síðar á skólabekk í KHÍ var skyldumæting í leikfimi og nú þýddi ekkert vottorð. Einhvers staðar á leiðinni höfðu öll stökkin og flikkflökkin týnst og nú var boðið upp á blak og boltaleiki. Það var öllu skárra.

Víkur þá aftur sögunni að sumrinu 1984. Um vorið þurfti ég að hlaupa eina 300 metra til að missa ekki af strætisvagni. Ég náði vagninum en var óglatt og illt lengi á eftir af átökunum. Öðru þræði varð þetta til þess að skokklífið hófst.

Allt þetta sumar fór ég 3-4 sinnum í viku mína 2-3 kílómetra. Það tók tvo mánuði að ná þeim áfanga að geta skokkað alla leið án þess að ganga. Smátt og smátt lengdist leiðin. Um haustið komst ég 5 kílómetra í fyrsta sinn. Það tók rúmar 40 mínútur. Mér fannst afrekið gífurlegt og taldi næsta víst að nú væri ég orðinn stórhlaupari á hafnfirskan mælikvarða.

Haustið kom og leið og áfram var hlaupið með sama hætti. 3-4 sinnum í viku og 5 í hvert sinn. Ekki minnkaði sjálfsálitið og þegar auglýst var víðavangshlaup í Hafnarfirði 30. desember ákvað ég að skella mér og stefndi að sjálfsögðu á verðlaunasæti.

Hlaupið hófst á Lækjaskólalóðinni. Þar norpuðu tæplega 20 hlauparar meðan þeir Hverfisgötufeðgar, Siggi, Maggi og Halli skipuðu fyrir og skiptu með sér verkum. Þar sá ég í fyrsta sinn þekkta hlaupara s.s Sigurð Pétur og Gústa Þorsteins, þvengmjóa og við það að taka flugið í upphituninni. Hópurinn stillti sér upp og síðan var skotið af stað. Ég var fyrstur eftir 30 metra og fann mikið til mín.Eftir voru aðeins fimm kílómetrar.

Til að gera langa sögu stutta kom ég svo síðastur í mark að einhver spurði Halla hvort þessi karl væri með í hlaupinu. Tímanum hef ég fyrir löngu gleymt en gamla máltækið: Dramb er falli næst, rifjaðist upp næstu daga og vikur meðan ég pjakkaði mína fimm í slabbi og bleytu. Það var ekki verið að fara langt í þá daga.

Sumarið 1985 var enn verið að fara 5 km þrisvar í viku en í ágústbyrjun var leiðin lengd í 6 km. Þá hafði frést af svokölluðu Reykjavíkurmaraþoni þar sem hægt var að fara skemmtiskokk. Þetta hljómaði freistandi og hélt manni við efnið. Ekki sá ég aðra skokkara á ferli í Hafnarfirði þessi fyrstu sumur hvað þá um veturinn og ekki laust við að börn og unglingar sendu góðlátlegan tón öðru hverju.

Skemmtiskokkið 1985 var stórkostleg upplifun. Mannfjöldinn, veðrið og stemmningin var engu lík. Þegar á reyndi gekk bara vel, maður blés eins og físibelgur og fékk blóðbragð í munninn og harðsperrur í fyrsta sinn en það var hluti af upplifuninni.

Enn var skokkað um veturinn og fram á vorið. Þá voru fá hlaup í boði fyrir venjulega skokkara og mig minnir að Neshlaupið hafi þá verið í fyrsta sinn. Önnur hlaup voru víst ekki það sumarið nema náttúrlega maraþonið um haustið og af bölvuðu oflæti og fávisku ákvað ég að fara heilt maraþon. Æfingarnar lengdust þó nokkuð en aðeins einu sinni tókst mér að fara 17 km og fannst það allt í lagi. Einhvers staðar hafði ég lesið að það þyrfti að fara langt á sunnudögum. 15 -17 þótti yfrið nóg.

Enn og aftur var maraþonið sama dýrlega upplifunin nema hvað seinni hringurinn var hreinasta hörmung. Ég gekk mestmegnis inn eftir Kleppsveginum og fór hitt á lötri. Harðsperrurnar entust í viku í þetta sinn.

Um haustið var ég einu sinni sem oftar að skokka niður Öldugötuna og sá þá tindilfætta hlaupara vera að hita upp við hornið á Tjarnarbraut og Hverfisgötu. Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvort ég mætti verða þeim samferða. Það var auðsótt mál en þess var getið í byrjun að ekki yrði beðið eftir mér ef ég drægist aftur úr. Áður hafði komið fram að æfing dagsins yrði létt og róleg og farið yrði stutt.

Þegar staðar var numið lágu 10 km að baki en enginn blés úr nös nema ég sem fékk að vera samferða og kom nú ekki upp orði fyrir mæði. Þeir teygðu í rólegheitum og spurðu hvort ég kæmi daginn eftir. Því var jánkað enda vandi velboðnu að neita.

Enn verður að gera langa sögu stutta. Þennan vetur elti ég Magnús Haraldsson og hans lærisveina, hlustaði á góð ráð og ábendingar, styrktist allur og stíllinn lagaðist. Illa gekk að halda í við þá félaga lengi framan af og alltaf virtust þeir hafa miklu minna fyrir þessu. En félagi Magnús var þolinmóður við karlinn sem vildi elta og sagði mér til eins og öðrum. Hraðaæfingarnar voru hræðilegar og enn finnst mér ekki sérlega gaman að hlaupa mjög hratt. En þarna dugði ekkert væl. Lærisveinar Magnúsar voru að stefna á að komast í landsliðið eða ná það góðum árangri að dygði til námsstyrkja við erlenda skóla. Sjálfur hugsaði ég aðeins um að lifa af hverja æfingu.

Það er Magga og félögum að þakka að næstu sumur gekk vel í hlaupunum. Hraðaæfingarnar skiluðu sér og þessi sumur eru notaleg í minningunni.

Því er þetta rifjað upp að nú í morgun 22. ágúst fórum við í hlaupahópnum mínum í létt 5 km hlaup sem síðustu æfingu fyrir Reykjavíkurmaraþon. Á þessari hátíð skokkara stendur það eitt upp úr að hver maður er sigurvegari. Þetta er hátíð hins almenna hlaupara sem setur sér markmið og nær því. Allir koma í mark sem sigurvegarar. Þó svo að erlendir kappar séu fengnir hingað til lands að bæta einhver brautarmet þá eru þeir ekki menn dagsins. Enda sjást þeir bara í 15 sekúndur eða svo þegar þeir koma endasprettinn í Lækjargötunni. Hvaða máli skiptir það fyrir okkur hin hvert brautarmetið er í heilu maraþoni eða hálfu? Hvaða munur er á 2:30 eða 3:30 þegar upp er staðið? Við sem heima hlaupum í frístundum okkar, sinnum börnum, búi og vinnu og öllu öðru sem önnum kafnir Íslendingar standa í, erum að vinna okkar sigra þótt þeir verði seint brautarmet. Í stað þess að kaupa erlenda hlaupagikki hingað dýrum dómum á að leggja á það ofuráherslu að fjölga Íslendingum í lengri vegalengdunum. Nú eru víst skráðir 170 manns í heilu. Flestir Íslendingar í heilu maraþoni voru á Mývatni í sumar eða 50 hlauparar. Er hugsanlegt að RM sé ekki lengur aðaltakmark langhlauparans? Er gert nógu vel við okkur heimafólkið?

Nóg að sinni. Sjáumst á hlaupum.

Gísli

Færðu inn athugasemd