Gloria Gaynor fer í sund

Heim kominn úr sumarfríi ákvað ég að æfa markvissar í haust og vetur og reyna að komast í skikkanlegt form. Einn liður í því er að byrja að synda með 3SH fyrr en í fyrra, en þá dró ég að mæta þar til í byrjun október og var í raun alltaf sundtaki á eftir hinum sem byggðu upp frá ágústlokum. Þess vegna hætti ég að synda nokkru eftir páska og fór að hjóla í staðinn. Það skilaði ágætu hjólaformi en ekki nógu góðu hlaupaformi. Ergo: Gæði fram  yfir magn.

Þetta er þriðja vikan á sundinu og ánægjan felst í því að finna ákveðnar framfarir. Fyrstu vikuna var ég Gloria Gaynor, þurfti að nota litlu froskalappirnar til að halda út æfinguna, sem var þó ekki ýkja löng, bara 1800 metrar. En eins og Gloria, söng ég I Will Survive, stóð á öndinni milli setta og barði niður löngunina að hætta og fara í pottinn. Það sem drepur mann ekki, herðir mann, og Mladen sparar ekki að segja okkur til. Flugsundstilbrigði á mánudaginn tókust merkilega vel og í dag var aðalsettið, eftir 1000 metra upphitun og létta spretti, sex sinnum 200 á höndum á 2.20. Fyrstu 200 voru erfiðir þar til ég fann taktinn og eftir það gekk þetta svo vel að seinni þrír voru auðveldari en ég bjóst við. Alls 2,5 km og skrokkurinn harla góður eftir þetta.

Það veit á gott þegar maður hlakkar til æfinganna og sér ekkert að því að vakna rúmlega 5 að morgni til að hreyfa sig með góðum félögum. Gloria kann þetta.

Færðu inn athugasemd