Comrades-Ágúst Kvaran

Comrade, 89,9 km ofurmaraþon í Suður-Afríku

Það var hrollkalt og myrkur himinn. Klukkuna vantaði örfáar mínútur í 6 að morgni mánudagsins 16. júní, 1997. Yfir höfðum okkar leið silalega ljósum skreytt loftfar. Í fjarska mátti greina þyt frá þyrluhreyflum og loftið var spennu þrungið. Ljóskastarar lýstu upp tilkomumikla sviðsmynd:

Yfir 13000 manns voru saman komnir í hnapp á aðalgötunni fyrir framan ráðhús Pietermaritzborgar í Natal héraði í Suður-Afríku tilbúnir að leggja að baki 89,9 km vegalengd á hlaupum eftir gamla þjóðveginum sem liggur um hæðótt landslag milli Pietermaritzborgar og Durban sem liggur við strönd Indlandshafsins. Eftir örfáar mínútur átti að ræsa hið sögufræga Comrade ofurmaraþonhlaup, það 72. í röðinni. Hlaup þetta var fyrst farið árið 1921 þegar 34 félagar úr hernum hlupu vegalengdina til minningar um fallna félaga sína í fyrri heimsstyrjöldinni. Síðan hefir hlaupið verið þreytt ár hvert að undanskyldum árunum sem síðari heimsstyrjöldin stóð yfir. Annað hvert ár er hlaupið um 86 km frá ströndinni inn í land til Pietermaritzborgar, um 600 metra hækkun og farið í um 820 m hæð hið mesta. Hin árin er hlaupið niður í móti á að giska 4 km lengra, eða um 90 km.

Hingað var ég kominn í fylgd með vinkonu minni og hlaupafélaga, Ólöfu Þorsteinsdóttur, tilbúinn að takast á við þessa þrekraun sem stöðugt laðar að fleiri og fleiri þátttakendur. Ég var með hnút í maganum og hoppaði í þröngu stæðinu mínu meira af taugaveiklun en til upphitunar. Ég hafði staðsett mig innan um aðra hlaupara nokkur hundruð metrum aftan við rásmarkið á stað sem ætlaður var þeim hlaupurum sem ráðgerðu að klára hlaupið á um 8 og 1/2 til 9 klukkustundum. Var ég tilbúinn í slaginn? Hefði ég ekki þurft að æfa ögn meira? Mundi ég hafa það að endamarkinu? Ætli ég fari að finna óþolandi verki í fótunum á leiðinni? Slíkar og fleiri álíka spurningar höfðu sótt á hugann dagana fyrir hlaupið. Nú varð ekki aftur snúið.

Frá áramótum hafði ég hlaupið nær þindarlaust í samræmi við hlaupaáætlun af Suður-Afrískri fyrirmynd, rúmlega 90 km á viku að meðaltali. Hlaupamagnið hafði aukist jafnt og þétt frá um 70 km á viku upp í um 100 km á viku fyrstu þrjá mánuði ársins, janúar – mars. Þá hafði komið ör stígandi í hlaupamagnið út apríl mánuð sem endaði í um 160 km á viku nálægt mánaðarmótum apríl-maí. Því næst hafði hlaupamagnið minnkað jafnt og þétt næsta einn og hálfan mánuðinn fram undir keppnisdag. Samanlagt höfðu nær 2200 km verið lagðir að velli frá áramótum fram til þessa dags. Á tímabilinu hafði ég notið dyggs stuðnings fjölda góðra hlaupafélaga heima á Fróni bæði í Hlaupaklúbbi Vesturbæjarlaugarinnar og í svokölluð ÖL-hóp („Örþreyttir langhlauparar“). Má þar nefna maraþonhlauparana Gísla Ragnarsson og Sigurð Gunnsteinsson sem fylgdu mér og hvöttu mig til dáða í fjölmörgum langhlaupum (allt að 58 km) í alls kyns veðráttu á erfiðum snjóavetri heima í Reykjavík. Ekki gat ég farið að bregðast þessum ágætu félögum mínum. Ég varð að ljúka þessu hlaupi hvað sem tautaði. Hvað var ég búinn að koma mér í?!

Vísarnir á turnklukku ráðhússins í Pietermaritzborg siluðust hægt áfram. Skyndilega hvað við kunnuglegan tón. „Chariots of Fire“ hljómaði yfir höfðum okkar og bergmálaði í hátalarakerfinu og milli næstu húsa. Menn litu andaktugir á svipinn til himins. Það fór kliður um strætið og gæsahúð spratt fram á mönnum. Að tónlistarflutningnum loknum var klappað og blístrað í ákafa eins og til að hrista af sér doðatilfinninguna sem fylgdi andaktinni og undirstrika að nú væru menn tilbúnir. Því næst gall við hávært hanagal úr sama hátalarakerfi, táknrænt merki/hljóð fyrir Comrade. Að því loknu hvað við þungur og hávær skothvellur líkt og sprengt væri fyrir húsagrunni. Hlaupið gat hafist. Fremstu menn við rásmarkið ruku af stað. Þar fór „elítan“: fagkeppnismenn sem höfðu þann starfa einan að hlaupa og hlaupa. Á hæla þeim fóru „grænklúbbsmenn“ sem er fjölmennur hópur hlaupara sem höfðu unnið sér það til frægðar að ljúka Comrade minnst 10 sinnum; þeir „albrjáluðustu“ var sagt. Því næst kom almúgurinn af öllum litarháttum og báðum kynjum. Það teygðist hægt á hópnum út eftir aðalgötunni fram hjá ráðhúsinu í austurátt. Við „8 – 9 klukkustunda hlaupararnir“ máttum standa kyrrir í sömu sporum í um 1 mínútu. Eftir það komst nokkur hreyfing á þann hluta hópsins og hraðinn jókst jafnt og þétt uns hreyfingar manna fóru loks að líkjast hlaupi eftir á að giska 5 mínútur. Það tók „okkur“ rúmar 4 mínútur að komast að rásmarkinu. Hlaupið var hafið.

Upphaf hlaupsins einkenndist af frískleika þátttakenda. Það var gantast innbyrðis og við áhorfendur í vegkantinum. Mikið var um hróp og köll, en þetta átti eftir að breytast. Hitastigið var einungis um 5 gráður í upphafi, fyrir sólarupprás svo flestir hlauparar íklæddust einhverjum umframfatnaði sem þeir voru tilbúnir að kasta af sér þegar hitinn ykist. Það leið ekki á löngu þar til sólin gægðist upp fyrir sjóndeildarhringinn og yljaði hlaupurum og umhverfi þeirra með dulúðlegri skímu morgunroðans. Áður en langt um leið hékk þessi glóandi eldhnöttur í öllu sínu veldi yfir höfðum okkar og sendi frá sér sólargeisla sem hrifsuði burt svitadropana af miskunnarleysi jafnóðum og þeir boguðu út um svitaholurnar. Hitinn mældist um 24 C hið mesta yfir hádaginn. Meðfram vegkantinum alla leiðina hafði verið komið fyrir samtals 55 drykkjar- og matar-stöðvum, staðsettar með eins og hálfs kílómetra millibili að jafnaði. Þar var boðið upp á kók, vatn, íþróttadrykki, ávexti og orkunammi, svo nokkuð sé nefnt. Auk þess hafði fjöldi áhorfenda, aðstandendur hlaupara, íbúar í nágrannaþorpum og áhugamenn um langhlaup, komið sér fyrir í vegkantinum og voru tilbúnir að rétta fram hjálparhönd við matar- eða drykkjar-gjafir eða aðhlynningu af ýmsu tagi. Á ákveðnum stöðum á leiðinni hafði verið komið fyrir sjúkrastöðvum og, er á leið daginn, mátti víða sjá önnum kafið hjúkrunarfólk í sjúkrabílum að huga að verkjum eða sárum hlaupara.

Hvatningar -hróp, -köll og -klapp frá áhorfendum veitti ómetanlegan stuðning. Enginn hlaupari átt að fá að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Ærandi tónlist hvað við allt um kring, ýmist frá hljómsveitum eða úr hátölurum hljómflutningstækja. Börn í vegkantinum sóttust eftir lófaklappi við hlaupara og hirtu upp hvaðeina sem þeir hentu af sér af umframfatnaði þegar hitinn jókst.

Í þessu landi þar sem aðskilnaður svartra og hvítra hafði viðgengist í hundruðir ára, var á þessari stundu og á þessum stað sama af hvaða litarhætti menn voru. Þótt hér hafi verið um keppnishlaup að ræða hugsuðu flestir um það öðru fremur að komast klakklaust í gegnum þessa þrekraun. Hver og einn fór með sinn persónulega ásetning um að ljúka hlaupinu á tilætluðum tíma, sem gat verið einhvers staðar á bilinu „undir 6 klukkustundir“ til „fyrir 11 klukkustundir“. Hið síðarnefnda voru efri mörk þess sem þurfti til að fá hlaupið metið. Hvatning, aðstoð, eða neyðarhjálp, allt var þetta veitt án tillits til litarháttar, kynþáttar eða uppruna. Slíkar skiptingar misstu merkingu sína við þessar aðstæður. Það hvarflaði að manni hvort lykilinn að lausnum á fjölmörgum samkiptavandamálum kynþátta eða þjóðfélagshópa væri ef til vill að finna í hliðstæðunni við það sem hér var að fara fram, þ.e. „samstöðu um átak að settu marki“(?).

Á að giska klukkustund frá upphafi hlaupsins hafði ég náð að týna af mér allan auka skjólfatnað vegna morgunkulsins og „flaggaði“ nú stoltur íslenska fánanum áföstum aftan á gulum hlýrabol. Auk þess hafði faðir minn, ákafur stuðningsmaður Knattspyrnufélags Akureyrar (KA), boðist til að næla merki félagsins framan á bolinn svona til að sýna innfæddum „hverjir væru bestir“ hinum megin á hnettinum! Á fótunum bar ég hlaupaskó frá eina styrktaraðilanum sem mér hafði tekist að næla í heima á Fróni, Össur hf.Mér leið prýðilega.

„Ertu virkilega kominn alla leið frá Bretlandi til að taka þátt í þessari vitleysu“ gall við einu sinni aftan við mig frá einhverjum hlaupara sem ekki var með fána Evrópuþjóðanna á hreinu. „Nei ég fór um lengri veg en svo“ sagði ég og skildi hann eftir í fávisku sinni! „Íslendingur“ hrópaði annar yfir sig hlessa, „Kærastan mín er líka þaðan“ bætti hann við! Ég hvorki heyrði í honum né sá hann meira. Öll leiðin var vörðuð háum skiltum þar sem tilgreint var með hvítu á svörtu hve margir kílómetrar væru eftir að marklínunni. Á því fyrsta stóð „80 km eftir“. Það var ekki laust við að þá færi um mann, þegar 10 km voru búnir! Fyrstu 20 km leiðarinnar var að jafnaði hækkun um 220 m í hæsta punkt hlaupaleiðarinnar í um 820 m hæð. Það var notaleg tilhugsun að vita til þess að afgangur leiðarinnar þegar „einungis“ 70 km voru eftir yrði að jafnaði niður á við, þó svo að hlaupaleiðin fæli í sér fjölmargar „upp-brekkur“ líka. Ég hafði raunar mætt til leiks fullviss í þeirri trú minni að það væri ákjósanlegri valkostur að hlaupa þetta hlaup niður í móti að strönd, þó svo að um lengri veg væri að fara. Ég var þó fljótt sannfærður um það af reynsluríkari Comrade hlaupurum að svo þyrfti alls ekki að vera. Löng „niðurhlaup“ reyna mun meira á hné og lærvöðva en „upphlaup“.

Þegar staðlaðri maraþonvegalengd (42,2 km) var náð reiknaðist mér til að um 3 klst og 45 mínútur væru liðnar frá ræsingu. Aldrei fyrr hafði ég hlaupið lengra í keppni. Ásamt félögum mínum, Gísla og Sigurði hafði ég þrívegis hlaupið lengri vegalengdir, hægar, á æfingum, tvívegis 50 km, fyrst milli þingstaðanna að Lögbergi og við Austurvöll og síðar umhverfis Þingvallavatn. Þá höfðum við einu sinni hlaupið 58 km frá Grindavík að Vesturbæjarlauginni í Reykjavík. Hvað nú? Eftir voru 47,7 km og það var óneitanlega farið að draga nokkuð af mér. Miðja hlaupsins var skammt undan. 45 km var lokið / voru eftir í bænum Drummond í 659 m hæð yfir sjávarmáli, í fallegu fjallaþorpi með brattar hlíðar beggja vegna við hlaupaveginn. Þar var tilkomumikið að hlaupa í gegn. Hvatningarópin og tónlistin voru háværari en áður hafði gerst og áhorfendaskarinn var það mikill að hann myndaði einungis mjóa rennu fyrir hlauparana til að fara um. Í miðju þorpinu ýlfraði stöðugt í tölvubúnaði sem tengdur var mottum á veginum þegar við hlupum yfir þær, en þær höfðu verið settar þar til að skynja tölvukubba sem allir hlauparar báru áfasta við skóreimar sínar vegna tímatöku. Tíminn 4 klst, 2 mínútur og 6 sekúndur frá ræsingu var staðfestur og meðtekinn fyrir Íslendinginn.

Fram að þessu hafði ég samviskusamlega fylgt ráðleggingum um „drykkjusiði“ sem ég hafði komið auga á í bunka af upplýsingagögnum sem dreift hafði verið til þátttakenda fyrir hlaupið. Samkvæmt þeirri forskrift skyldi ég dreypa á íþróttadrykk sem boðið var upp á á drykkjarstöðvunum nær samfellt fyrstu 50 kílómetrana. Drykkur þessi samanstóð af 6% sykurlausn með ögn af salti. Blanda þessi var til þess fallin að fá sem hraðasta upptöku nauðsynlegs orkuforða í formi þrúgusykurs inn í blóðrásina. Nú leið hins vegar að því að þátttaskil skyldu verða á „drykkjusiðunum“. Samkvæmt sömu forskrift átti ég að snúa mér að drykkju sterkari sykurdrykks (um 15% þrúgusykurblanda) eftir um 50 km hlaup. Samviskusamlega greip ég 150 ml plastsekk merktann „Megalode“ þegar tæpir 40 km voru eftir, beit gat á hornið á honum og sprautaði dísætum læðjukenndum orkuvökvanum upp í mig. „Oj bara“, þvílíkt ógeð! Ég lét mig þó hafa það og fékk mér slíka sykurleðju á að giska á 15 mínútna fresti upp frá því, auk þess sem ég þambaði vatn þess á milli. Þar kom að 58 km voru búnir. Lengra hafði ég aldrei hlaupið áður. Hvað tæki nú við. Mér fannst ég vera að fara inn á einskis manns land. En framundan var ríflega hálft maraþon og ég hafði hlaupið reiðinnar býsn af hálf-maraþon hlaupum í gegnum tíðina. Því skyldi ég ekki geta gert það líka núna(?), hugsaði ég.

Nú hófst sálfræði „niðurtalningarinnar“ af fullum krafti. Þegar 14 km voru eftir minntist ég fjölda hlaupa sömu lengdar sem við hlaupafélagarnir í „elsta og virðulegasta“ hlaupaklúbbi Stór-Reykjavíkursvæðisins, „Hlaupaklúbbi Vesturbæjarlaugarinnar“ höfðum hlaupið: Frá Vesturbæjarlauginni austur á Suðurgötu, vestur um Ægisíðu, út undir Gróttuvita eftir Eiðisgranda og í Laugina aftur. Einungis ígildi þess hlaups var eftir. Þegar 10 km voru eftir minntist ég allra 10 km almenningshlaupanna sem ég hafði tekið þátt í í gegnum tíðina. Mér var litið niður á fæturnar á mér. Undarlegri skynjun brá fyrir eitt augnablik. Mér fannst eins og að ég væri utan líkamans sem hreyfðist vélrænt og tilfinningalaust áfram skref fyrir skref fyrir skref. Það höfðu fyrir löngu komið skilaboð til heilans frá fótleggjunum þess efnis að fara nú að hætta þessu. Þar tókust á tvö andstæð öfl, vilji og máttur, sem náðu þó samkomulagi um reyna að ljúka ætlunarverkinu. Síðustu kílómetrarnir liðu hægt hjá, „5 km eftir“, „4 km eftir“, „3 km eftir“ stóð á skiltunum. Það tók því ekki að gefast upp úr þessu. Ég innbyrti meiri sykurleðju, drakk vatn, skvetti köldu vatni yfir höfuðið, herðarnar og á lærin og horfði stjörfum augum fram á veginn sem virtist aldrei ætla að enda. Jú, annars, fram undan blöstu við skýjakljúfar miðborgar Durban. Einhvers staðar inn á milli þeirra var Cricket leikvangur þar sem hlaupinu lyki. Það var notaleg tilfinning að sjá byggingu leikvangsins blasa skyndilega við handan við vegarhorn í á að giska 1 km fjarlægð. Hún færðist nær. Líkt og í leiðslu liðum við áfram nokkrir hlauparar í hnapp eftir strætinu, þögulir, sviplausir, hver í sínum heimi. Hlið leikvangsins blasti við, grænn grasflötur sást fyrir innan. Skyndilega skullu á óvenju hávær hróp og köll frá áhorfendapöllum leikvangsins. Hálfan hring um leikvanginn þurfti til viðbótar. Af veikum mætti gaf ég allt sem eftir var í eitthvað sem ég taldi sjálfum mér trú um að líkstist endaspretti!

Það var úrvinda langhlaupari sem tók skjálfandi höndu við viðurkenningarpeningi úr greipum yngismeyjar, minnsta viðurkenningapeningnum í safninu mínu fyrir lengsta hlaupið. Það var ólýsanleg tilfinning að standa við marklínuna með um 90 km að baki eftir margra mánaða undirbúning og ásetning um að glíma við eitt elsta og þekktasta ofurmaraþon sögunnar og að hafa tekist ætlunarverkið. Það voru fagnaðarfundir með okkur Ólöfu, vinkonu minni, þegar hún mætti mér með undrunarsvip handan við marklínuna. Ég hafði lokið hlaupinu fyrr en áætlun hafði gert ráð fyrir, 7 klukkustundum , 57 mínútum og 11 sekúndum frá ræsingu, varð 1330. í röðinni af 11249 sem luku hlaupinu fyrir 11 klukkustunda tímamörkin og af 13144 sem hófu hlaupið. Ég gat ekki annað en verið ánægður.

Hvað fær menn til að taka sér fyrir hendur slíka þolþraut hefi ég oft verið spurður síðan. Ég á ekkert einhlýtt svar við slíkri spurningu. Ef til vill á hlaupafélagi minn, Gísli Ragnarsson, besta svarið, þegar hann segir í hvert skipti sem hann er spurður að því af hverju hann hlaupi heilt maraþon ár eftir ár: „Af því að ég get það“!

Eða, kannski felst svarið í orðum Arthur Newtons, undrabarns langhlaupanna, sem sigraði Comrade 5 sinnum á fyrri hluta aldarinnar, þegar hann sagði: „Hlaup og þrekraunir af ýmsu tagi leiða í senn til líkamlegra og andlegra framfara og gera manninn hæfari til að takast á við hvers kyns verkefni. Hann vinnur betur, hugsar skýrar og athafnast af meiri dug og krafti en ella. Slíku líferni fylgir aukin lífsfylling, sem við öll leitum eftir“.

Ágúst Kvaran 28.7.´97

Færðu inn athugasemd