Samlokan 2012 1. kafli.

Samlokan: Þórsmörk-Landmannalaugar-Þórsmörk í einum áfanga á félagslegum hraða.
Tilgangur: Meta leiðina fyrir keppnishlaup og athuga hvort þetta væri framkvæmanlegt.
Þátttakendur: Ágúst Guðmundsson (ljósmyndari leiðangursins), Sigurjón Sigurbjörnsson, Karl Gíslason og undirritaður.
Þessi mynd af okkur Samlokubræðrum í upphafi leiðangursins mikla sýnir að þrátt fyrir þreytu, blöðrur, eymsli, svita og táfýlu, var andinn alltaf góður. Þarna erum við í Emstrum um fimmleytið á leiðinni uppeftir og veðrið lék við okkur, eins og reyndar allan tímann. Við lögðum af stað 14:15 frá Mörkinni og skokkuðum/gengum sem leið lá með vatnsstoppum og nestisstoppum að Álftavatni. Þar tók kvöldsólin á móti okkur og framundan var erfiðasti leggurinn, upp Jökultungur með 600 metra hækkun og 400 metra lækkun að Laugum, sem yrði 400 metra hækkun og 600 niður á bakaleiðinni.
Það kólnar hratt á fjöllum og menn tíndu á sig spjarir á brúninni en ritari var höndum seinni að bretta niður brækur og fékk slæman krampa í hægri kálfa sem varð að seigdrepandi verk á leið að skálanum í Skeri. Þar sem skynsemin varð að ráða, var afráðið að ég myndi fyrirberast þar meðan hinir færu niðureftir. Ég át verkjalyf, dottaði í smátíma en gekk eftir það um gólf og teygði og nuddaði til skiptis. Eftir hálftíma gat ég stigið í fótinn og eftir annan hálftíma gekk ég næstum óhaltur. Þá komu þeir félagar að neðan og út í morgunsvalann var haldið og gengið rösklega niður í ylinn við Álftavatn.

Þar var áð og hugað að blöðrum. Gústi fékk það verkefni að reyra saman tvær tær á mér til að þær yrðu til friðs.Það gekk prýðilega og eftir að hafa gengið varlega í hálftíma fann ég næstum ekkert til. Staðan á okkur þegar þarna var komið sögu var misjöfn. Skafsár innanlærs hrjáðu Kalla en Sigurjón og Gústi voru sprækir. Nína var okkur samferða niðureftir og nú óðum við allar ár til að kæla heita fætur, enda er líka vesen að fara svona oft úr þröngum aðhaldssokkum. Bláfjallakvíslin þótti sérlega kælandi og nú vorum við Kalli orðnir frekar hægir.

Hér erum við komnir aftur niður í Emstrur á föstudeginum. Samanburður á myndunum sýnir þreytumerki á mannskapnum en andinn var góður. Þarna var búið að útvega Kalla far niður á Hvolsvöll, enda mál að gera að sárum hans.
Sigurjón og Gústi ákváðu að skokka niðurúr og gerðu það en við Nína fórum aðeins hægar. Ekkert lá á í góða veðrinu, sólin bakaði okkur og í svo ríkum mæli að á Kápunni settumst við aðeins niður, fengum okkur gel og ég steinsofnaði í drjúga stund.

Í Mörk var gott að koma og hvíla lúna vöðva. Ég fékk aðstoð við að tjalda og koma mér fyrir, át vel og spjallaði við mann og annan og fór að sofa upp úr kl. 20 eins og Kalli, sem fékk skutl inneftir og orðinn stálhress eftir vænar umbúðir á meiddið.
Daginn eftir var bara gaman að taka á móti hlaupurum og ástandið almennt gott á okkur, allir voru vel rólfærir, sumir í hlaupfæru standi en allir með góða matarlyst.

Þetta er 1. kafli sögunnar. 2. kafli fjallar um búnaðarmál, næringu og vatnsból á leiðinni, veður og færð. 3. kafli fjallar um tær undirritaðs. 4. kafli verður um eitthvað.

Færðu inn athugasemd