Bláalónsþrautin mín 2012

Bláalónsþrautin var á listanum yfir það sem ég ætlaði að gera meðan mér entist aldur og form. Það var þó með hálfum huga því ég var yfirlýstur andstæðingur hjólreiða á malarvegum og ekki varð sú andúð minni þegar ég fór æfingaferð á brautinni nokkrum dögum fyrir keppni. Þá var hún grýtt og leiðinleg og þá var ekki afstaðið rallið sem var víst laugardaginn fyrir keppnina. Ég hef sennilega haft of mikinn þrýsting í dekkjunum því hjólið dansaði eins og ballettsveinn í yfirþyngdarflokki og eftir þriðju byltuna á 3 kílómetrum sneri ég við í bæinn og smalaði saman ástæðum til að hætta við þetta á heimleiðinni. En eftir undirbúningsfund með Bjartsmönnum var réttur þrýstingur í dekkjum og ekkert annað að gera en hætta þessu væli og gyrða sig í brók.

Fyrir óinnvígða má geta þess að hjólað er í breiðfylkingu frá Ásvallalaug, upp Ásbrautina og að hraðahindrun fyrir neðan hesthúsin í hlíðinni. Fyrstu 15 frá fyrra ári fá að vera í fremstu röð, enda hafa þeir unnið sér það inn. Við minni spámennirnir erum aftarlega og tölum digurbarkalega fram að ræsingu. Eftir það er þetta más og blástur. Leiðin er á malbiki fyrstu 11 km, svo er möl í 35 km, áætlað, síðan er malbik á nýja Suðurstrandarveginum gegnum Grindavík, við tekur malarkafli kringum Þorbjörn og eftir það er malbik í mark eða um 4 km.

Á planinu við Ásvallalaug var mikið talað um hvað brautin væri slæm, sennilega með alversta móti og það jók ekki kjarkinn. En þegar til átti að taka fannst mér vegurinn merkilega góður og hjólið dansaði ekkert.  Mín áætlun gekk út á að klára á skikkanlegum tíma (undir 3 stundum), fara varlega í brekkunum (ekki detta) og taka mölina í sátt. Allt þetta gekk eftir og þótt allt að 10 mínútur færu í droll á drykkjarstöð og keðjuflækju í ónefndri brekku, komst ég alla leið á 2:52 og var ekki sérlega þreyttur. Sem er auðvitað gott því þá á maður eitthvað inni. Eftir súpu og orkudrykki hjólaði ég heim í Hafnarfjörð og náði alls 95 km þennan dag.

Þetta var góður dagur og skilaði mörgu. Ég er núna fylgismaður malarvega og laus við brekkufælni. Ég verð á skárri dekkjum næst, jafnvel á skárra hjóli því gamli hlunkurinn er orðinn tíu ára og má muna sinn fífil fegurri. Ég stefni á bætingu og er reyndar ánægðastur með að hafa stuðlað í ár að góðum árangri Stjörnu Bjarts, liðsins míns, því minn tími hafði engin áhrif á góða samtölu félaga minna!

Færðu inn athugasemd